Lesbók Morgunblaðsins, 10. desember 2005
Ég er búsettur í Hollandi þar sem enginn þekkir mig og ég gæti logið hverju sem er um sjálfan mig – væri ég þannig innrættur – eða jafnvel hafið nýtt líf og lagað það gamla að skáldskap og uppspuna. En það er svo sem ekkert merkilegt við það. Ég bý á stúdentagarði og flestir hér eru í sömu aðstöðu. Þau gætu öll alveg eins logið að mér eins og ég að þeim. Hins vegar bý ég yfir forréttindum sem fáir í húsinu geta státað af. Ég kem frá landi sem fæstir vita nokkuð um en margir eru spenntir að heyra frá.
Ég hef reyndar orðið fyrir vonbrigðum með hversu fáir sem ég hef kynnst hafa búist við eskimóum og snjóhúsum – ég hefði glaður viljað ljúga þau full af sögum til að styðja við þá staðalímynd – en allt það furðulega sem fólk virðist vita um land og þjóð hefur komið mér skemmtilega á óvart. Einn daginn kom maður upp að mér og spurði hvort það væri satt að allir hati hunda í Reykjavík? Ég svaraði að sjálfsögðu játandi – dýravinir eru fáséðir á klakanum og hundavinir þeirra sjaldgæfastir, einkum og sér í lagi þegar kemur að lagasetningum og borgarskipulagi. Sjáðu til, Íslendingar ganga enn með úreltan ótta við sullaveikina í genunum og þykjast sjá ímyndaðan óvin sinn í saklausum fésum þessara indælu ferfætlinga. Erlendir kunningjar búsettir í Reykjavík voru svo furðu lostnir að þeir töldu sig knúna til að klippa út niðurstöður könnunar í dagblaði um hvort leyfa ætti hunda á Laugaveginum – í þeirra landi þykir hundafrelsi svo sjálfgefið að slík vitleysa kæmist ekki einu sinni á blað, hvað þá í prentun. Næsta spurning! Er satt að nöfnin í símaskránni séu flokkuð eftir fyrsta staf fornafna? Smíðar íslenskan sér ávalt nýyrði í stað tökuorða? Ef þú myndir hitta samlanda frá því fyrir þúsund árum, er það satt að þið gætuð talað saman og skilið hvor annan á skynsamlegan máta?
Þessar spurningar eru kannski ekki sérstaklega spennandi – en hundaspurningin er einkar áhugaverð. Hvers konar ímynd hefur smitast út fyrir strendurnar ef gæi frá meginlandinu spyrst fyrir um hundahatrið sem einkennir smáborgarahátt Reykvíkinga? Ég veit ekki hvernig þessari neikvæðu ímynd tókst að fljúga yfir hafið, en ég fagna henni hástöfum og tek duglega undir! Málið er nefnilega að þessi gæi er nánast einsdæmi. Flestir sem ég hef hitt búa yfir óeðlilega hástemmdri ímynd af Íslandi og sjá landið með ofbirtu í augum sem griðastað ofsafenginnar náttúru þar sem listamenn og álfadrottningar búa í sátt, samlyndi og friðsæld í einhvers konar bóhemískri Tolkien-paradís. Hvað ég nýt þess að brjóta niður tálsýnina! Já, við hötum hunda – láttu orðið berast félagi, alla leið til heimalandsins!
Það var einkum fyrsta mánuðinn minn hér að ég rausaði og röflaði í sífellu um stíflugerðir, stríðsbrölt, dýrahald og ýmislegt sem fara mætti betur hér á landi. Dregið hefur úr þessu undanfarið, þar sem flestir sem ég umgengst eru orðnir þaulkunnugir skoðunum mínum og ég eignast ekki marga nýja vini. Aumingja fólkið sem reyndi að hefja kurteisislegt samtal við mig fékk yfir sig heilu fyrirlestrana. „Mig hefur ávallt dreymt um að ferðast til Íslands,“ hefur það sagt og ég svarað um hæl: „Drífðu þig áður en við sökkvum því!“ – og þá varð ekki aftur snúið. Manneskjan sogast ofan í áróðurs maskínu bitra Íslendingsins sem nýtir hvert tækifæri til að vinna gegn hræsnaralyginni um draumalandið Ísland sem breiðist um heiminn líkt og eldur í sinu. Og þá spyr fólkið: Hvers vegna hatarðu landið þitt? Og þá svarar sá bitri: Hvað áttu við? Ég elska landið mitt! Það er ímynd þess sem ég þoli ekki.
Comments