Lesbók Morgunblaðsins, 15. júlí 2006
Fyrst þegar ég sá stuttheimildamyndina Dýrablóð (1949), eða Le Sang des Bêtes, eftir Georges Franju ætlaði ég varla að trúa að slík mynd skyldi hafa verið gerð fyrir tæpum sextíu árum síðan. Dýraréttindabarátta eins og hún þekkist í dag varð ekki að raunverulegri hreyfingu fyrr en á áttunda áratugnum og stuttmynd Franjus varð fljótlega þekkt sem sterkur fyrirboði hennar. Á rúmum tuttugu mínútum stillir Franju upp ljóðrænum og fögrum veruleika í úthverfum Parísarborgar undir lok fimmta áratugarins á móti vélrænni verkamennsku sem á sér stað á bak við luktar dyr hverfissláturhúsanna. Franju forðast að falla ofan í predikanir með því að nota tilfinningalausar lýsingar sem endurspegla hvernig vanafestan hefur dregið allt líf úr fjöldaslátruninni. Tilgangur myndarinnar frá sjónarhóli Franju var ekki endilega að stuðla að grænmetisáti – áhugi hans lá frekar í togstreitunni og þverstæðunni sem fyrirfinnst í sambandi smáborgaranna og slátraranna, á milli almennings sem kýs að búa í þægilegri sjálfsblekkingu um gang lífsins og verkamanna sem leggja kraft sinn í að viðhalda blekkingunni.
Dýrablóð hefur verið skilgreind sem „últra-realísk“ vegna þess hversu hreinskilnislega er farið með umfjöllunarefnið – það er ekki reynt að fela eða fegra neitt. Allar helstu slátrunaraðferðir Parísar eru dregnar upp og sögumaður lýsir nákvæmlega hvað felst í hverri þeirra án þess að fella dóm (það er áhorfandans verk). Sumir geta ekki horft lengra en á upphafsslátrunina þar sem stór hvítur hestur er stunginn í höfuðið með þrýstibyssu en þeir sem þrauka fá að fylgjast með nautgripum fá exi í höfuðið, kálfum afhausuðum lifandi og lambalíkum spriklandi saman uppi á borði löngu eftir að þau hafa verið tekin af lífi (svo eitthvað sé nefnt). Ég fer ekki út í smáatriðalýsingar en áhugasamir geta nálgast stuttmyndina á nýlegri Criterion-útgáfu annars stórvirkis Franjus, Augum án andlits (1959), eða Les Yeux sans Visage. Ég vil hins vegar rétt velta fyrir mér áhrifum þess að horfa á mynd á borð við Dýrablóð.
Því verður ekki neitað að ofbeldi sem á sér stað í sláturhúsum er eitt best varðveitta leyndarmál hvers nútímasamfélags. Fólk getur rifist fram og aftur um hvort það sé réttlætanlegt eða ekki en það getur ekki horft framhjá því sem á sér stað – dýr eru drepin og blóðið rennur. Í stórmarkaðsmenningu á borð við okkar breikkar gjáin á milli kjötætunnar og bráðarinnar sífellt. Neytendur hafa gjörsamlega misst samband við fæðið og bitarnir sem vafðir eru í plast í kjötborðinu framkalla engin tilfinningatengsl lengur. Flestir kjötneytendur eru ánægðir með að taka óbeinan þátt í því að úthella blóði en hversu margir hafa það í sér að taka virkan þátt með því að slátra og verka líkama upp á eigin spýtur? Verk á borð við Dýrablóð geta komið á fót nýrri tengingu við dauðann og blásið fersku lífi í staðnað ofbeldi. Hver sá sem upplifir þann veruleika neyðist til að staldra við og velta fyrir sér stöðu sinni stundarkorn því að þægilegur vafinn sem fylgir því að versla í stórmarkaðinum hlýtur að hverfa frammi fyrir öllu blóðinu. Þá verður hver og einn að taka ákvörðun, ætli sá hinn sami að vera hreinskilinn í skoðun sinni – annað hvort styður hann og réttlætir verknaðinn með því að horfast beint í augu við kjötið eða kýs að neita honum og gefa kjöt upp á bátinn. Millivegur blekkingarinnar er ekkert minna en hræsni. Borgarbúar ættu að brjóta sér leið í gegnum tálsýninguna með því að sækja sláturhúsin heim ásamt fjölskyldum sínum og gerast hreinskilnar kjötætur á ný.
Comments