top of page
Search
gunnaregg

Minningarorð um kött

Lesbók Morgunblaðsins, 9. júní 2007



Ein fallegasta kisa sem ég hef nokkurn tímann kynnst var að deyja. Ég veit ekki hvað hún hét, en kallaði hana alltaf Lubbu í höfuðið á Lobba bróður hennar og Loðbrandi stjúpafa hennar. Hún fæddist seinasta haust og dó í byrjun sumars. Ég hef búið með köttum alla mína ævi og hef gengið í gegnum lífshlaup þeirra áður. Tveir gamlir kettir eru grafnir úti í garði. Það var erfitt að takast á við dauðsföll þeirra beggja, en engu að síður mátti finna huggun í því að þeir lifðu bæði vel og lengi. Ég hef líka grafið kettlinga í garðinum. Þeir fengu ekki að upplifa neitt, heldur fæddust andvana og því lítið hægt að velta fyrir sér örlögum þeirra. Ég hef hins vegar aldrei áður upplifað dauða kattar sem var þarna mitt á milli, nýbúinn að taka fyrstu skrefin í lífinu og rétt farinn að rúlla af stað. Lubba litla var dóttir Hnoðru, kisunnar hjá mömmu og pabba, og ég fann fyrir miklum tengslum við hana vegna þess að ég tók á móti henni við fæðingu. Það hef ég aldrei gert áður og sú lífsreynsla er ofarlega á lista yfir þær mögnuðustu hingað til. Elsti kettlingurinn í gotinu dó og það var mikil gleði þegar systkinin þrjú komust heil á húfi í heiminn.


Ég fylgdist með þeim vaxa og styrkjast, sá persónuleikana koma í ljós á ólíka vegu og kynntist þeim öllum náið. Þegar þau voru orðin nægilega sjálfstæð voru þau gefin og allir kettlingarnir enduðu innan ættarinnar. Lubba litla var algjör bolla, kafloðin og silkimjúk, ættuð af persakyni í aðra ættina en óvíst var um faðernið. Ég held ég hafi séð pabba hennar einu sinni á göngu í götunni heima. Hann starði heillengi á mig eins og hann vissi að ég hefði tekið á móti börnunum hans. Sá köttur er loðinn líka, með íkornaskott eins og afkvæmin þrjú. Mamman er af dvergakyni en pabbinn ekki. Börnin sem eftir lifa stefna í að verða stærri og loðnari en mamma þeirra. Ég fékk aðeins tækifæri á að hitta Lubbu einu sinni eftir að hún flutti að heiman og ég er ánægður með það. Ég held að hún hafi munað eftir mér. Hún kom til mín og var ófeimin, en hún forðaðist iðulega ókunnuga. Þegar hún var kettlingakríli hagaði hún sér eins. Hún var alltaf svolítið hrædd við mannfólk og leið best í fanginu á mömmu sinni eða þegar hún kúrði sig niður í hrúgu með systkinunum. Þá var hún sallaróleg og það skipti engu máli hvernig bróðir hennar og systir slógust allt í kringum hana eða klóruðu hana og bitu til að draga hana með í leikinn – hún svaf bara og slakaði á í öllum látunum. Hún var alltaf frekar lítil í sér og við vissum að hún þyrfti að komast á gott heimili. Hún komst í vist hjá yndislegu fólki og þegar ég kom til þeirra í heimsókn og hitti Lubbu fullorðna í þetta eina skipti sá ég að hún var orðin mjög sjálfstæð. Hún réð sér sjálf og fékk að fara út í garð eins og hana lysti, enda var hún alltaf úti að leika sér. Ég man eftir að hafa hugsað hvað hún hefði það gott að búa á jarðhæð í svona rólegu hverfi, ég sá ekki betur.


En sumir bílar keyra hratt, meiraðsegja í rólegum íbúðarhverfum. Ég minnist þess eitt sinn þegar ég sat í bíl með félaga mínum og hann brunaði niður götuna mína að skutla mér heim. Ég lét hann heyra það og skammaði hann fyrir hugsunarleysið. Það á aldrei að keyra hratt í götum þar sem kisur búa, sagði ég og hann sá strax hlutina í nýju ljósi. Hann hafði einfaldlega ekki hugsað út í það áður, enda aldrei búið með köttum. Síðan þá passar hann sig alltaf. Þess vegna rita ég þessi minningarorð um Lubbu litlu sem er sárt saknað og vona að lesendur hugsi hlýlega til kattanna þegar þeir bruna næst niður göturnar.

19 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page