top of page

VETRARSAGA

IMG_20171115_210735275.jpg

I

 

Ég vaknaði við ógurlegan skell og gat ekki hreyft mig af hræðslu. Ég starði upp í opinn ljórann. Það var stormur úti. Ég einbeitti mér að snjókornunum sem féllu í átt að rúminu og fylgdist með þeim hverfa inn í hitann í herberginu. Ég reyndi að sannfæra mig um að skellurinn væri ímyndun. Tilhugsunin um að þeir væru komnir aftur var mér ofviða. Ég lá grafkyrr og kófsveittur og teygði mig yfir til Arnþrúðar sem lá sofandi við hliðina á mér. En ég var einn í herberginu.

​

Annar skellur rauf þögnina. Ég settist upp í rúminu og fylgdist með snjókornunum bráðna í myrkrinu – fastur milli martraðar og veruleika. Var ég vakandi? Hafði ég sofið? Ég mundi ekkert eftir kvöldinu áður. Ég hef drukkið mig í svefn síðan Hlynur litli hvarf fyrir tólf dögum. Ég hlustaði á þögnina. Ég hlustaði á vindinn væla um gluggann fyrir ofan mig. Þegar þriðji skellurinn hristi húsið stóð ég á fætur og staulaðist fram göngin án þess að taka eftir andlitinu sem teygði sig yfir skjáinn og fylgdist með mér.

 

Um leið og ég hafði stigið fram fékk ég sting í höfuðið og sá ekki neitt. Ég var með hnífa í eyrunum sem snerust hring eftir hring svo að augun þrýstust út úr augntóftunum. Ekki í fyrsta sinn. Ég féll í moldargólfið. Ég stóð á fætur. Ég varð að fara niður og finna Arnþrúði og barnið. Enn einn skellurinn glumdi um göngin.

Þegar ég kom niður voru útidyrnar opnar og ég sá hvernig vindurinn opnaði og skellti þeim að vild. Ég leit út en sá ekkert nema snjóinn. Ég lokaði og læsti og tók eftir blóðslóðinni sem lá frá anddyrinu niður að kjallara. Ég kveikti á olíulampanum sem hékk við kjallarahurðina og hlustaði á þögnina. Ég hlustaði á barnið væla í gegnum hurðina fyrir neðan mig.

Þegar ég kom niður sá ég Guðrúnu grenjandi í körfunni sinni, Hlyn meðvitundarlausan á gólfinu og Arnþrúði sitjandi klofvega ofan á liggjandi karlmanni. Klæði hennar voru tætt og rifin, það blæddi úr andlitinu og hún hélt dauðataki utan um háls mannsins á gólfinu sem var hreyfingarlaus og löngu dauður. Það vantaði báða fæturna á Hlyn og þrjá fingur á hægri hönd. Þegar Arnþrúður sá mig sleppti hún takinu og saman hugguðum við Guðrúnu og bjuggum um sár Hlyns. Við vorum frávita af hræðslu. Hún sagði mér að þeir hefði komið aftur og viljað fá að skipta á börnum. Þeir vildu skila okkur Hlyni og fá Guðrúnu í staðinn. Þeir hafa aldrei skilað neinu á lífi.

​

Hún hafði vaknað við ógurlegan skell og reynt að vekja mig. Þeir stóðu við bæjardyrnar með Hlyn blóðugan í fanginu og hún fór og sótti Guðrúnu í barnakörfunni. Um leið og annar þeirra hafði stigið fæti inn í húsið greip Arnþrúður hníf sem hún hafði falið í körfunni og stakk hann í síðuna. Hún flúði með Guðrúnu niður í kjallara á meðan hinn hugði að særðum félaga sínum. Þegar hún sneri aftur upp að sækja Hlyn voru þeir báðir horfnir. Hún dró son okkar niður í kjallara og sá þá hvar hinn ósærði skreið inn um gluggann til að ná barninu í körfunni. Arnþrúður réðst til hans af öllu afli, yfirbugaði hann og kyrkti til bana. Eftir að hún sagði mér frá því sem gerst hafði leit ég í átt að glugganum sem hann hafði skriðið gegnum og í augnablik tók ég eftir andlitinu sem fylgdist með okkur og hvarf umsvifalaust aftur inn í snjóstorminn. Ég greip öxina sem við geymum við eldiviðarhrúguna og hljóp út en sá ekkert nema snjóinn. Því sneri ég aftur til kjallarans þar sem Arnþrúður var að vefja klæðum um sár sonar okkar, gekk að líkinu á gólfinu og hjó af því höfuðið í þremur þungum höggum.

IMG_20171115_210802797.jpg

II

 

Þetta er höfuðið sem hangir hér á veggnum. Þetta er andlit hans sem hefur rænt börnum okkar. Eitt andlit af mörgum. Það eru liðnir þrír sólarhringar og Hlynur er farinn að jafna sig. Hann getur talað núna. Hann getur sagt okkur hvar þau halda sig. Vonandi hafa þau ekki náð að flytja sig um set.

​

Hjá mér er hópur þorpsbúa sem hafa allir misst niðja sína til fjölskyldunnar á fjallinu. Það eru fá börn eftir í þorpinu. Ættartrén eru við það að falla. Hópurinn hefur mætt með öll þau vopn sem okkur bjóðast – hamra, axir, heygaffla, skóflur og hnífa – og í dag ætlum við að finna morðingjabælið. Hlynur er kominn til meðvitundar. Ég segi honum að við höfum farið út á hverjum degi, upp á fjöll og leitað þeirra. Á hverjum degi. Aldrei fundið neitt. En Hlynur er farinn að jafna sig. Hann getur ekki gengið framar. En hann getur talað.

 

Hann lýsir hellinum fyrir okkur. Hann lýsir leiðinni þangað. Hann lagði allt á minnið. Duglegur strákur. Hann lýsir því sem gerðist inni í hellinum. Hann lýsir beinahrúgunum. Höfuðkúpunum sem skreyta veggina. Kerlingunni og karlinum og pottinum þar sem þau matreiða börnin. Sonum þeirra sem veiða í matinn. Hann lýsir því þegar hann sá þau stinga lifandi ungbarni í sjóðandi vatn. Hann lýsir því þegar þau neyddu hann til að borða með sér. Hann lýsir kattarkvikindinu sem fær að naga beinin og gæða sér á leifunum. Kattarkvikindinu sem klóraði hann og beit í sífellu og tók af honum þrjá fingur. Hann segir okkur að hjónin borði aðeins ungbarnakjöt. Þess vegna luku þau ekki við hann. Smökkuðu á fótleggjunum en gáfu kettinum afganginn. Þannig komst kvikindið upp á bragðið. Tók af honum þrjá fingur. Þegar þau komust að því að Hlynur ætti yngri systur sendu þau synina að sækja hana. Þau ætluðu að gabba foreldrana með því að bjóða þeim eldra barnið til baka. En mamma bjargaði mér, segir hann. Mamma bjargaði okkur báðum.

 

​

Loksins hefur einhver komist lífs af. Við fáum leiðbeiningar og höldum upp á fjall. Við göngum snjóinn hálfan dag áður en við finnum hellismunnann í mjórri klettasprungu. Við höldum vopnuð inn en komumst fljótt að því að enginn er á staðnum. Þau hafa stungið af. Hellirinn lyktar. Við finnum hrúgur af beinum. Hauskúpur á veggjum. Leifar af eldstó. Það er saur og hland í hornunum. Nálykt. Hjónin eru horfin. Farin á nýjar slóðir. Þriggja daga forskot. Komin í annan landshluta. Öll fjölskyldan. Við náum þeim aldrei.

III

 

Við söfnum saman beinum og reynum að raða saman líkömum. Ekkert okkar getur borið kennsl á líkin. Ekkert okkar finnur börnin sín. Líkin eru mun fleiri en við héldum. Við grátum þau öll. Við gröfum margar holur og myndum lítinn kirkjugarð í fjallshlíðinni. Presturinn blessar svæðið. Hann hefur misst dóttur sína. Hlíðin verður heilagur staður. Hingað mun engin óvættur hætta sér framar.

​

Á leiðinni niður hlíðina tek ég eftir tveimur þeirra sem fylgjast með okkur úr fjarska. Um leið og við verðum vör við þá taka

þeir á flótta upp fjallið. Við eltum og náum þeim fljótlega. Þeir ferðast hægt. Annar þeirra er lágvaxinn og tekur lítil skref. Hinn er gríðarhár en haltrar. Við náum þeim og drögum þá með okkur niður í þorp. Þeir eru greinilega bræður. Þei reru ófríðir og lykta viðurstyggilega. Lykta eins og hellirinn.

IMG_20200316_190618_edited_edited.jpg

Við pínum þá til að tala. Við heimtum að fá að vita hvert fjölskyldan hefur flúið. Þeir tala ekki. Segjast hafa verið í burtu og komið heim að tómum helli. Við drögum neglum af fingrum og tám. Við höggvum í hnéskeljar þess hávaxna og stingum augun úr þeim lágvaxna. Þeir segjast ekkert vita. Okkur liggur ekkert á. Við höfum alla nóttina. Við sækjum skóflur og gröfum djúpa gröf fyrir utan þorpið. Jörðin er frosin. Við fleygjum þeim ofan í. Af moldu eru þeir komnir og til moldar skulu þeir aftur hverfa, segir presturinn áður en hann mokar með fyrstu skóflunni í andlit þess lágvaxna. Við röðum okkur upp hringinn í kringum gröfina og byrjum öll að moka. Með hverri skóflustungu fá þeir tækifæri til að leysa frá skjóðunni. Þeir tala ekki. Þeir hverfa ofan í ískalda jörðina, þeir öskra og kúgast af moldinni sem við mokum yfir þá, en þeir mæla ekki orð.

​

Sá litli fer á undan. Hann hrækir út úr sér moldinni sem safnast upp í kringum hann. Bróðir hans lyftir honum upp að sér og reynir að halda honum á lofti. Sá litli grenjar og öskrar en þegir þegar hann fær hrúgu af mold niður í kok. Sársaukaöskur breytist í aumingjalegan hósta. Hann rennur úr faðmlögum bróður síns og sekkur ofan í jörðina. Þá talar sá stóri. Hann segir okkur allt sem við við viljum heyra. Grátbiður okkur að sýna miskunn og leyfa sér að lifa. Ég sýni honum miskunn. Í einu þungu höggi sýni ég miskunn.

Við ljúkum verkinu og mokum yfir þá. Við sækjum stóran stein til að merkja staðinn. Máðir af jörðu, Grýlu synir. Sameinaðir moldinni að nýju. Kviksettir. Blóðrauð morgunsól rís. Við eigum langa ferð fyrir höndum.

bottom of page