top of page
Search
gunnaregg

Siðferðislegt heilsufæði

Updated: Mar 14, 2020

Lesbók Morgunblaðsins, 30. júlí 2005



Lífskjör grænmetisætunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa skánað töluvert síðastliðin ár. Áður fyrr voru Náttúrulækningafélagið og aðventistarnir eina athvarf hennar en eftir áralanga bið getur hún loksins gætt sér á flestum þeim náttúruafurðum sem hún hefur lesið um í matreiðslubókum hugsjónafólks á borð við Lindu McCartney. Sérhæfðar verslanir, matsölustaðir og kaffihús hafa skotið upp kollinum hér og þar innan um hefðbundnari samkomustaði alætunnar. Grænmetismenningin hefur einnig gert vart við sig í ýmsum matvöruverslunum þar sem finna má frosið sojakjöt í kælinum við hlið dýraskrokka og afgirtar hillur eða horn þar sem grænmetisætan á sér athvarf og getur fundið lífrænt ræktaðar vörur, baunir, tófú og þvíumlíkt. Þetta er allt gott og blessað. Vissulega fagna ég öllum framförum á þessu sviði og játa að ég lifi ágætu lífi sem grænmetisæta í höfuðborginni þrátt fyrir að það geti stundum verið dýrt að kaupa inn.


Engu að síður er grænmetismenning Íslendinga enn sem komið er vanþróuð og brotakennd. Grænmetisætan lifir í sérhæfðum heimi sem er í engum tengslum við heildarmynd samfélagsins og mætir gjarnan skilningsleysi þegar út í umheiminn er komið. Matsölustaðir alætunnar bjóða ekki upp á úrval grænmetisrétta – þeir bjóða í langflestum tilvikum aðeins upp á einn slíkan rétt. Hann kallast nær undantekningarlaust heilsuréttur. Þetta lýsir vel viðhorfi samfélagsins til grænmetisætunnar. Í augum samfélagsins er grænmetisætan einungis að hugsa um heilsuna þegar hún kaupir sér mat. Matsölustaðir koma til móts við þetta með því að bjóða upp á einn rétt af skyldurækni við heilsufríkin og láta þar með staðar numið. Hugmyndin um grænmetisætuna sem starfar af siðferðislegum ástæðum er einfaldlega ekki til staðar. Sem dæmi um andstæðu við ástandið hérlendis er hægt að benda á Lundúnaborg (og í raun meirihluta Bretlands) þar sem grænmetisætan er jafnstór og sjálfsagður hluti samfélagsins og alætan. Flestir veitingastaðir bjóða upp á úrval grænmetisrétta og sumir gefa jafnvel upp þann valkost að breyta hvaða rétti matseðilsins sem er í grænmetisrétt. Allar vörur í matvöruverslunum eru vandlega merktar með V-i ef þær eru „hentugar fyrir grænmetisætur“.


Þannig má lýsa muninum á grænmetismenningu Íslendinga og Breta með einföldu dæmi um samlokur. Í Lundúnum má finna margar tegundir af grænmetissamlokum en engin eggjasamloka telst „hentug“ fyrir grænmetisætuna nema að um „frjáls egg“ (vapphænuegg) sé að ræða. Þær örfáu grænmetissamlokur sem finna má hér á landi eru nær allar með eggjum og mér þykir afar ólíklegt að um frjáls egg sé að ræða – það er a.m.k. hvergi nefnt á umbúðunum – og þær heita oftar en ekki heilsubitar. Þetta sérstaka hugarfar varðandi heilsurækt vekur áhuga minn þar sem allar grænmetisætur sem ég umgengst hafa snúist til betri vegar af siðferðislegum ástæðum. Til gamans má geta að eftir að ég söðlaði um og hætti að nærast á holdi hef ég bætt á mig kílóum sem aldrei fyrr. Það er því athygli vert að velta fyrir sér hvernig þessi áhersla á heilsufæði náði yfirhöndinni í grænmetisheiminum. Vissulega hefur siðferðislega grænmetisætan áhyggjur af heilsunni en hún sýnir heilsufari dýranna sem gefa af sér kjötið meiri áhuga en eigin vellíðan. Ég er ekki vanur að auglýsa eða predika mínar matarvenjur þegar ég stíg fæti út í samfélagið en ég tel mig knúinn til að leiðrétta þær ranghugmyndir sem ráða ríkjum um grænmetisætuna á höfuðborgarsvæðinu sem neitar sér um þær holdlegu lystir án þess að gera það endilega af heilsufarsástæðum.




6 views0 comments

Recent Posts

See All

Yorumlar


bottom of page